Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 531 . mál.


830. Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Aftan við 5. mgr. 10. gr. laganna bætist ný setning er orðast svo: Heimilt er að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsembætti samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er flutt að höfðu samráði við Háskólann á Akureyri til að tryggja að lagagrundvöllur fyrir framgangskerfi kennara við skólann verði með hliðstæðum hætti og tíðkast hefur við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Eðlilegt verður að telja að samræmis sé gætt í þessum efnum og að kennurum við Háskólann á Akureyri séu tryggð sömu réttindi og starfsbræðrum þeirra við sambærilegar stofnanir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Grein þessi á sér hliðstæðu í 6. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, og síðustu málsgrein 32. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands. Veitt er heimild til framgangs kennara í hærri stöður samkvæmt ákveðnum skilyrðum er sett verða í reglugerð með hliðsjón af ákvæðum 19. gr. reglugerðar nr. 98/1993 fyrir Háskóla Íslands og 46. gr. reglugerðar nr. 496/1990 um Kennaraháskóla Íslands. Meðal annars er gert ráð fyrir ákvæðum um að skipa skuli dómnefndir til að fjalla um framgang kennara með sama hætti og þegar stöður eru auglýstar og að háskólanefnd skuli setja reglur um framgangskerfið og leggja þær fyrir menntamálaráðuneytið til staðfestingar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri.

    Í frumvarpinu er kveðið á um að heimilt verði að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í prófessorsstöðu. Með þessari breytingu verður framgangskerfi kennara við Háskólann á Akureyri með hliðstæðum hætti og við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Erfitt er að meta þennan kostnað en ætla má að kostnaður vegna hvers kennara sem fær tilfærslu verði tæpar 200 þús. kr. á ári. Kostnaðarauki er háður því í hvaða mæli svona heimild verður notuð en gera má ráð fyrir að fyrst í stað verði margir sem munu óska eftir hækkun. Þegar jafnvægi kemst á verða þeir hugsanlega 1–3 á ári. Einnig má gera ráð fyrir einhverjum kostnaði vegna dómnefndar sem er ætlað að meta umsóknir um tilfærslu en sá kostnaður gæti numið u.þ.b. 100 þús. kr.
    Það er mat fjármálaráðuneytis að kostnaðarauki vegna þessa frumvarps verði ekki meiri en svo að hann rúmist innan fjárveitingar til skólans.